top of page

Nám og námserfiðleikar

Hér finnur þú ýmislegt sem varðar nám og námserfiðleika. Nám tekur tíma og þess vegna þurfa nemendur að bregðast fljótt við ef þeir lenda í erfiðleikum með námið. 

Dyslexia

 

 

Orðið dyslexía er komið úr grísku og merkir "erfiðleikar með orð". Hugtakið er eins konar regnhlífarhugtak og er notað um vanda við þróun lestrarfærni, stafsetningar- erfiðleika, skort á lesskilningi, erfiðleika við að greina orð, lesa upphátt og litla færni við að leysa verkefni þar sem lestrar er krafist. Þessu nátengt er oft vandi við ritun (dysgraphia) svo og vinna með tölur og form (dyscalculia).


Aðaleinkenni er sértæk og veruleg skerðing á þróun lestrarfærni. Þessi skerðing verður ekki skýrð með greindaraldri (tornæmi eða þroskahömlun), skertri sjón, heyrn, hreyfihömlun, ófullnægjandi kennslu eða félags- eða tilfinningalegum erfiðleikum. Vandinn þarf að vera marktækt meiri en hjá jafnöldrum. Gott er að hafa í huga að færniskortur á öðrum sviðum t.d. í fínhreyfingum eða einbeitingarskortur getur aukið á sértækan vanda nemenda. Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um hvernig beri að skilgreina og leggja mat á dyslexíu. Ástæðan er m.a. sú að dyslexía er margþættur vandi og birtist á mismunandi hátt. Einkenni geta verið misaugljós frá degi til dags og geta einnig verið háð viðfangsefni, þau aukast t.d. ef vinna þarf hratt og rétt með ritað mál.

Orsakir dyslexíu. Nákvæm orsök er ekki þekkt en flestar rannsóknir benda til að hún sé af líffræðilegum toga sem lýsa má sem taugasálfræðilegum veikleikum í þroskamynstri, oft meðfæddu, t.d. úrvinnslu hljóðrænna áreita, hljóðkerfisvitund, sjónúrvinnslu, raðminni, skammtímaminni og sjálfvirkni. Þetta leiðir til þess að seinkun eða truflun verður þegar kemur að því að tileinka sér lestur og ritun og árangur verður ekki í samræmi við almennan vitsmunaþroska nemandans.

Tíðni og greining dyslexíu. Rannsóknir á Vesturlöndum sýna að 5-10% allra barna séu í einhverjum mæli heft vegna dyslexíu og 3-4% alvarlega. Dyslexía er ekki auðgreinanleg hjá öllum og kemur fram á mismunandi hátt. Sömuleiðis er misjafnt hve mikið dyslexían háir nemanda. Oft kemur vandinn ekki fram fyrr en nám fer að þyngjast töluvert og reynir þá meira á hæfni til lestrar. Eðli vandans getur einnig tekið breytingum þegar nemandi eldist.


Úrræði. Nemendur með dyslexíu þurfa skilning, stuðning, hvatningu og aðhald kennara og forráðamanna. Álagið við að standast mistök, gagnrýni og vonbrigði getur leitt til líkamlegra veikinda og hegðunarvandamála. Stundum gera unglingar uppreisn eða kjósa með aðgerðarleysi að firra sig öllu námi.

 

 

Aðrir námserfiðeikar

Þú getur fundið upplýsingar um námserfiðleika af ýmsu tagi með því að fara á vefina sem tilgreindir eru hér að neðan.

http://www.persona.is/index.php?action=articles&method=display&aid=109&pid=18



http://www.jgh.is/namsordu_grein.html

bottom of page